Mörg dýr týnast yfir hátíðirnar og eru týnd í lengri tíma, meðal annars vegna hræðslu við flugelda og myrkrið hjálpar ekki við leit. Nú fara flugeldar að fara upp í loftið og með þeim fylgja háir hvellir sem dýr geta hræðst. Áramótin 2020/2021 týndust 15 hundar á gamlársdag og ekki allir sem komust lifandi heim til sín, áramótin 2021/2022 týndust 12 hundar en allir komust heim heilir á húfi. Maður veit aldrei hvenær slysin gerast, enda gera þau ekki boð á undan sér. Hugsum um velferð dýranna okkar og gerum ráðstafanir til að sporna við því að dýrin týnast.
Það sem hægt er að gera heima fyrir

- Stilla sjónvarp/útvarp á háan hljóðstyrk
- Hafa alla glugga lokaða og læsa hurðum
- Draga fyrir gluggatjöldin
- Minna gesti, börn og aðra á heimilinu að loka hurðum svo dýrið komist ekki út
- Ekki fara með hund út til að skjóta flugeldum
- Ekki loka dýrin ein inni, verið róleg og sýnið stuðning, látið eins og ekkert sé
- Undirbúið skemmtileg verkefni eins og t.d Kong eða aðrar heilaþrautir til að dreifa huga dýrsins
- Veitið dýrinu öruggt skjól – hvort sem það er undir rúmi, inni í búri eða í fangi á fólki, leyfið dýrinu að vera þar sem það leitar í skjól.
Róandi lyf og annað sem hægt er að gefa dýrinu


Munið að róandi lausnir sem fást í gæludýrabúðum eru nær ígildi vítamína, ilmkjarnaolía og annarra náttúrulegra lausna, það getur hjálpað dýrum sem eru óörugg og stressuð en ef dýrið er með ofsahræðslu leitið ráðlegginga hjá dýralækni.
- Royal Canin Calm – róandi fóður fyrir hunda og ketti, fæst aðeins á dýraspítölum og þarf að gefa í nokkra daga áður en áramótin byrja.
- Pet remedy – róandi ilmkjarnaolía (fæst hjá Dýrabær, dyrabaer.is)
- Adaptil – róandi ferómón fyrir hunda sem fæst aðeins hjá dýraspítölum
- Feliway – róandi ferómón fyrir ketti sem fæst aðeins á dýraspítölum
- Thundershirt og MPS shirt – vafningur/vesti sem hjálpar hundum og köttum að slaka á (fáanlegt hjá Dýralæknamiðstöð Grafarholts)
- Canosept – fyrir hunda róandi hálsól eða róandi sprey fyrir hunda (fæst hjá gaeludyr.is og voffaland.is)
- Veti calm – streituminnkandi fyrir hunda (fæst hjá voffaland.is og lifland.is)
- No stress – róandi töflur fyrir hunda og ketti (fæst hjá keiko.is)
- Stress olía frá Heiðaspor
- Felisept – fyrir ketti róandi lyktardreifari í innstungu, sprey eða róandi hálsól í boði (gaeludyr.is)
- Hægt að fá róandi lyf frá dýralækni í samráði við dýralækninn. Flest lyf eru hætt að vera sljóvgandi eins og þau voru áður fyrr.
- Bætiefni geta hjálpað við kvíða og hræðslu en eftirfarandi efni eru í þeim sem virka best: amino sýran L-trypthophan, valerian rót og casein (ath ekki gefa dýrunum neitt af þessu nema það sé ætlað fyrir dýr)
- Happy Hoodie – hetta sem hefur streituminnkandi og róandi áhrif á dýrið sem og dempar hljóð (fæst hjá dýrasp´´itala garðabæjar og Gæludýrakliníkinni)
Það sem er gott að hafa í huga yfir hátíðirnar


- Gott að hafa í huga að flest dýr týnast yfir hátíðirnar og þá mikilvægt að passa upp á gæludýrin, sérstaklega ef dýrið er í pössun og þekkir sig ekki í umhverfinu.
- Gott er að eiga GPS tæki – t.d frá Tractive ef ske kynni að dýrið myndi týnast – passa að hafa það fullhlaðið (fæst í vefverslun Dýrfinnu og á www.voffaland.is)
- Eiga LED ól ef hundurinn týnist í myrkrinu (fæst t.d hjá voffaland.is og gaeludyr.is)
- Ekki sleppa hundi lausum ef þú ert með hund í pössun undir neinum kringumstæðum yfir þennan tíma
- Ekki sleppa hundi lausum út t.d að pissa nema hann sé á vel afgirtu svæði, annars er langlínutaumur góður kostur
- Sama gildir um lausagöngu, hafa hundinn í langlínutaumi þar sem að ekki er hægt að sjá fyrir hvenær að flugeldar fara í loftið og hundarnir geta hræðst
- Það segir ekkert til um hve mikið hundurinn er heimakær, allir hundar geta fengið hræðsluviðbrögð og stungið af og týnst
- Farðu vel yfir búnað hundsins og þrengdu ólar og beisli svo hundurinn nái ekki að bakka útúr því ef hann panikkar!
- Einnig skiptir miklu máli að hafa viðeigandi merkingar á ólum/beislum svo hægt sé að ná fljótlega á eiganda ef hundur finnst.
Ef dýr týnist


Ef dýr týnist yfir hátíðirnar er mikilvægt að auglýsa sem fyrst á netinu – hægt er að ná sambandi við Dýrfinnu í gegn um Facebook eða í síma 7754234 , 8425460 og 7703200.