
Það er mjög eðlilegt að verða stressuð eða stressaður þegar hundur týnist. Mundu að flestir hundar finnast – og skrefin hér að neðan hjálpa þér að bregðast hratt, rólega og rétt við.
1. Byrjaðu á að auglýsa
Það fyrsta sem þú ættir að gera er að setja inn stutta, skýra auglýsingu á Facebook og í appi Dýrfinnu ef þú ert með það.
Í auglýsingunni ættu að koma fram upplýsingar um hvar og hvenær hundurinn týndist, hvernig það gerðist (t.d. hræddist og hljóp, í pössun, laus í garði o.fl.), hvort fólk megi elta hann (ekki mælt með fyrir hrædda hunda), símanúmer, helst fleiri en eitt og góð lýsing á hundinum og því sem hann er með á sér, t.d. ól, beisli, peysu eða taum.
Þessi skref tryggja að sem flestir sjái strax hvað er að gerast og geti haft augun opin.
2. Haltu upphafsstaðnum opnum fyrir hann
Margir týndir hundar koma aftur á upphafsstað, sérstaklega ef þeir urðu hræddir og hlupu í burtu.
Þess vegna skiptir miklu máli að skilja staðinn eftir opinn fyrir hann og fara ekki langt frá.
Ef hundurinn týndist heiman frá er gott að hafa forstofuna eða garðinn opinn.
Ef hann týndist annars staðar skaltu setja bælið hans eða búr á staðinn þar sem hann hvarf, helst með hurðina opna.
Ef þú ert ekki með slíkt við höndina getur þú sett eitthvað sem hefur sterka lykt af hundinum eða eiganda, t.d. föt, rúmföt eða teppi. Það er einnig gott að setja út lyktarmikinn mat á staðinn.
3. Sérstök aðstaða, ef hundur týnist úr pössun eða er mjög hræddur
Ef hundurinn týnist úr pössun, er nýkominn á heimili, nýfluttur, veikur eða viðkvæmur er sérstaklega mikilvægt að fá ráð strax.
Í þessum tilvikum er mælt með að hafa strax samband í neyðarsíma Dýrfinnu.
Neyðarnúmerin eru breytileg og má finna neðst á heimasíðunni þeirra.
4. Ef hundurinn er hræddur og á flótta
Hræddir hundar hegða sér öðruvísi en þeir sem eru bara að skoða sig um.
Þeir hlaupa oft í beina línu, fela sig þar til streituhormónin hafa lækkað og geta verið í felum í nokkrar klukkustundir eða jafnvel daga.
Það mikilvægasta:
- Ekki kalla á hundinn
- Alls ekki reyna að elta hann
Þetta getur ýtt honum lengra í burtu.
Reyndu frekar að lokka hann til baka með róandi líkamsmáli, lykt af eiganda eða ef hægt er að nálgast fellibúr.
Gott er að horfa á stutt myndband um róandi merkjamál sem virka sérstaklega vel á hrædda hunda.
5. Skipuleggðu leitina og fáðu hjálp
Fáðu fjölskyldu, vini, nágranna eða fólk í nærumhverfi, til að hjálpa með leitina.
Settu það skýrt fram í auglýsingunni ef þú þarft fleira fólk.
Þeir sem hjálpa þurfa að vita:
- Að ekki á að kalla á hundinn ef hann er hræddur
- Að aðeins þeir sem hann þekkir vel ættu að reyna að nálgast hann
Í leitinni er mikilvægt að leita virkt:
líta undir palla, runna, skjól og alla staði sem hægt er að fela sig á.
Lýsa með vasaljósi inn í runna og undir hluti, ekki bara labba um svæðið.
Ef hundurinn sést en vill ekki koma er mikilvægt að hringja strax í eiganda og lýsa nákvæmlega hvar hann fór og hvernig hann leit út (ól, beisli, litur o.fl.).
Þetta hjálpar til að halda leitinni skipulagðri og koma í veg fyrir rugling.
6. Ef hundurinn fer í “ævintýraferð”
Ekki allir hundar hverfa í panik.
Sumir eru rólegir, forvitnir og bregðast ekki illa við – þeir fara einfaldlega aðeins út fyrir sitt venjulega svæði.
Þessir hundar sjást oft í nálægum görðum eða í hverfinu og má yfirleitt kalla á þá með venjulegu kalli, svo lengi sem rödd eiganda er róleg og eðlileg.
Ekki öskra, þó að þú sért stressuð eða stressaður.
7. Ef þú hefur leitað í nokkrar klukkustundir án árangurs
Ef virkt leitarátak hefur staðið yfir í klukkutíma eða fleiri og ekkert sést til hundsins er gott að hafa samband við:
- Hundafangara / heilbrigðiseftirlit sveitarfélagsins
- Dýraþjónustu Reykjavíkur (DÝR) ef um er að ræða höfuðborgarsvæðið
- Sími: 822 7820
- Tekur við hundum frá Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Mosfellsbæ og Garðabæ
- Yfirleitt opið til kl. 20:00
Einnig er gott að tilkynna hundinn hjá lögreglunni og skilja eftir símanúmer og lýsingu ef tilkynning berst síðar.
8. Athugaðu örmerkið – Dýraauðkenni
Til að tryggja að hundurinn komist heim eins hratt og mögulegt er ætti skráður eigandi að fara inn á www.dyraaudkenni.is og athuga:
- hvort örmerkið sé rétt skráð
- hvort samþykki fyrir upplýsingabirtingu sé virkt
- hvort símanúmer sé rétt
Það er einnig mjög gagnlegt að skrá hundinn týndan eða stolinn í kerfinu, þannig sér hver sem skannar örmerkið það strax.



