Bjartur er 14 ára er gulur eldri rakki sem „heyrir illa og er slæmur í liðum og fer því hægt yfir“. Hann týndist milli 4:00 og 4:30 þegar honum var hleypt út að pissa með öðrum hundi á heimilinu.
Hann var samtals týndur í um 5 klukkutíma en fannst á endanum ofan í skurði 500 metrum frá heimili sínu í beinni loftlínu milli Jörfavegs og Kasthúsatjarnar. Hann fannst vegna ábendingar frá feðgum á Álftanesi sem höfðu verið á gangi stutt frá og séð hundinn, ómögulegt er að hann hefði fundist svona fljótt ef ekki hefði verið fyrir ábendinguna þar sem skurðurinn er langt úr alfaraleið.
Bjartur var greinilega búinn að vera fastur í leðjunni í þó nokkurn tíma, hann var orðinn mjög þreyttur og aðeins höfuðið stóð upp úr. Það þurfti fjóra einstaklinga til að bera Bjart heim og fara með hann í bað þar sem hann var alsvartur af leðju.
Eftir bað og dekur er hann þreyttur en þakklátur að vera kominn heim og sömuleiðis þakkar Guðrún Antonsdóttir, eigandi Bjarts, innilega nágrönnum sínum og Önnu og Eygló, sjálfboðaliðum Hundasveitarinnar sem mættu á staðinn og aðstoðuðu við leitina.
Dýrfinna vill því ítreka mikilvægi þess að skoða skurði gaumgæfilega í nágrenninu ef hundur týnist og engar vísbendingar fást um að sést hafi til hans, það bendir til þess að hundurinn sé úr alfaraleið og/eða hafi komið sér í einhverskonar sjálfheldu. Það hefur svo sannarlega bjargað Bjarti að finnast svona fljótt.